Styrktarleikur fyrir Unni og fjölskyldu

Krakkarnir í 8. flokk Selfoss körfu. Ljósmynd/Ólafur Valdín Halldórsson

Næstkomandi sunnudagskvöld mætir Selfoss toppliði Hattar í 1. deild karla í körfubolta. Leikurinn er styrktarleikur fyrir Unni Björk Hjartardóttur og fjölskyldu, en eiginmaður hennar, Jón Þorkell Gunnarsson, lést þann 21. janúar síðastliðinn eftir stutta og erfiða baráttu við krabbamein.

Leikurinn hefst kl. 19:15 í Gjánni Vallaskóla og er aðgangseyririnn 1.000 krónur. Frjáls framlög eru líka vel þegin og bendir Selfoss Karfa fólki einnig á styrktarreikning 0123-15-003183 kt. 150277-5319.

Unnur er kennari í Sunnulækjarskóla á Selfossi og vann Jón Þorkell í íþróttahúsi skólans. Unnur kennir nær öllum iðkendum Selfoss körfu í 8. flokki og þau munu leggja sitt af mörkum til aðstoðar í leiknum, meðal annars með gæslu, aðstoð í sjoppu, á ritaraborði og ekki síst munu þau sjá um að draga í happdrætti í hálfleik með hjálp Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra.

Með hverjum aðgöngumiða fylgir happdrættismiði og hafa nokkur fyrirtæki lagt til glæsilega vinninga, gistingu, mat og fatnað, svo eitthvað sé nefnt. Á milli leikhluta verður skotleikur þar sem hægt er að vinna gjafabréf á Huppu.

Það má líka búast við mikilli stemningu í stúkunni en Benni Bongó, einn aðalmeðlimur Sérsveitarinnar og áður Tólfunnar, mun halda uppi stuðinu á pöllunum. Fólk er hvatt til að fjölmenna á leikinn og leggja góðu málefni lið.

Fyrri greinOlíublautir fuglar við suðurströndina
Næsta grein150 manns bjargað úr föstum bílum undir Eyjafjöllum