Stuðningurinn skiptir mjög miklu máli

Í dag kl. 17:15 mætir lið Selfoss liði ÍR í Laugardalshöllinni í undanúrslitum Símabikars karla í handbolta. Liðið sem vinnur leikinn mætir annað hvort Akureyri eða Stjörnunni í úrslitum á sunnudaginn.

ÍR-ingar eru í 4. sæti N1-deildarinnar, en Selfyssingar í 4. sæti 1. deildar. Þrátt fyrir það segist Arnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, þekkja lið ÍR vel.

„Þeir hafa góða vörn, góða hraðaupphlaupsmenn og marga menn sem eru nýkomnir úr atvinnumennsku. Þarna eru fálkaorðuhafar og silfurhafar á Ólympíuleikum, þannig að það vantar ekki gæðin,“ segir Arnar og bætir við að þetta verði krefjandi og skemmtilegt verkefni.

Hann segir að undirbúningur liðsins fyrir þennan leik sé ekki á neinn hátt frábrugðinn öðrum leikjum. Reyndar var bætt við einum fundi með Jóhanni Inga Gunnarssyni, handboltasérfræðingi og íþróttasálfræðingi. „Hann getur kannski ýtt á ákveðna punkta sem hann þekkir betur en ég og aðrir. Þetta var mjög fínn fundur,“ segir Arnar.

Aðspurður um hvað Selfoss þurfi að gera til að vinna leikinn segir Arnar léttur í bragði að þeir þurfi að skora fleiri mörk en ÍR. „Við þurfum að spila góða vörn og fá markvörslu. Við þurfum að skila okkur heim í vörn og koma þannig í veg fyrir þeirra hraðaupphlaup. Þá held ég að við getum alveg átt fínan möguleika,“ bætir Arnar við.

Arnar vill meina að stuðningur Selfyssinga í stúkunni skipti mjög miklu máli. „Ég hvet atvinnurekendur og vinnandi fólk á Selfossi að hætta fyrr í dag til þess að koma í Höllina og styðja við liðið,“ segir Arnar og skiptir ekki máli hvar þessir Selfyssingar eru búsettir.

„Þetta eru Selfyssingar í þessu liði, þetta er okkar fólk. Þetta er stór helgi og það væri frábært að spila á sunnudaginn líka.“

Selfyssingar eiga fleiri fulltrúa í Höllinni um helgina því í fyrramálið kl. 11 leikur 4. flokkur kvenna til úrslita í bikarnum gegn HK. Á sunnudag kl. 11 leikur 4. flokkur karla til úrslita gegn Fram og á sunnudagskvöld kl. 20 leikur 3. flokkur kvenna til úrslita, einnig gegn Fram. Ekkert annað félag er með þrjú lið í úrslitakeppni bikarsins um helgina.

Fyrri greinTöfrandi helgi framundan
Næsta greinÍbúafundur og kosning um gatnamót á Flúðum