„Strákarnir spiluðu eins og brjálæðingar“

ÍF Mílan vann sinn stærsta sigur í sögu félagsins í kvöld þegar liðið lagði KR með ellefu mörkum, 27-16. Mílan er ósigrað á toppi 1. deildarinnar ásamt Stjörnunni.

„Þetta var bara mjög gaman í kvöld. Við erum ennþá ósigraðir á toppi deildarinnar og það verður bara að segjast að það er framar vonum. Strákarnir spiluðu eins og brjálæðingar, spiluðu með hjartanu og ég gerði eiginlega ekki neitt, þeir sáu bara um þetta,“ sagði hógvær þjálfari Mílunnar, Örn Þrastarson, eftir mjög taktískan sigur á KR.

„Varnarleikurinn var frábær, við fengum bara sextán mörk á okkur og það gerist ekki betra. Sóknin var mjög fín líka. Það skiptir engu þó að einhvern vanti, þessi Mílanhópur er bara svo mikið lið og menn eru að fórna sér fyrir liðið og félagana,“ sagði Örn ennfremur.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá tók Mílan öll völd á vellinum og breytti stöðunni úr 3-3 í 10-4. Munurinn jókst svo enn frekar fyrir hálfleik en staðan var 14-7 í hálfleik.

KR-ingar mættu ákveðnir til síðari hálfleiks en þegar munurinn minnkaði fundu Mílumenn alltaf svör og smátt og smátt dró af gestunum. Grænklæddir Míludrengir léku hins vegar á alls oddi þegar leið á leikinn með Sævar Inga Eiðsson fremstan í flokki í sókninni.

Mílan lék án tveggja markahæstu leikmanna sinna í vetur, en bæði Atli Kristinsson og Ársæll Ársælsson voru fjarri góðu gamni. Og gamanið var vissulega gott, því Mílanmenn njóta nú lífsins á toppi deildarinnar, ósigraðir eftir þrjár umferðir.

Sævar Ingi var markahæstur með 10 mörk og Gunnar Ingi Jónsson skoraði 7. Jóhannes Snær Eiríksson skoraði 4 mörk, Sigurður Már Guðmundsson 3 og þeir Gísli Guðjónsson, Árni Felix Gíslason og Róbert Daði Heimisson skoruðu allir eitt mark.

Sverrir Andrésson varði 15 skot og var með 50% markvörslu.

Fyrri grein„Sem betur fer var varnarleikurinn frábær“
Næsta greinUndirstöður brúarinnar ekki traustar