Strákarnir okkar: Viðar skoraði tvö

Viðar Örn Kjartansson skoraði tvö mörk fyrir Vålerenga sem vann norsku meistarana í Strømsgodset 3-0 á heimavelli í dag. Viðar var valinn maður leiksins.

Viðar kom Vålerenga í 1-0 á 44. mínútu þegar hann tók fyrirgjöf á kassann innan teigs og lagði boltann framhjá markverðinum. Seinna mark Viðars kom af vítapunktinum á 73. mínútu eftir að brotið hafði verið á Viðari innan vítateigs.

Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Viking sem tók á móti Aalesund. Víkingarnir sigruðu 2-1 en Jóni Daða var skipt útaf á 75. mínútu.

Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn fyrir Sarpsborg 08 sem tapaði 2-0 á útivelli gegn Odd.

Jón Daði og Víkingarnir eru í 2. sæti deildarinnar með 14 stig, Vålerenga hefur 10 stig í 5. sæti og Sarpsborg er í 9. sæti með 8 stig þegar sex umferðum er lokið.

Viðar er markahæstur í deildinni með 6 mörk.