Strákarnir okkar: Viðar og Guðmundur skoruðu

Viðar Örn Kjartansson og Guðmundur Þórarinsson komust báðir á blað þegar 27. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu fór fram um helgina.

Guðmundur skoraði sigurmark Sarpsborg 08 þegar liðið heimsótti Brann á föstudagskvöld. Brann leiddi 1-0 í hálfleik en Sarpsborg svaraði með tveimur mörkum í síðari hálfleik. Guðmundur skoraði sigurmarkið á 82. mínútu og var svo tekinn af velli fjórum mínútum síðar.

Viðar Örn kom Vålerenga í 1-0 gegn Rosenborg á útivelli í dag. Oslóarliðið bætti öðru marki við skömmu síðar en Rosenborg náði að jafna, 2-2, fyrir leikhlé. Rosenborg skoraði eina mark síðari hálfleiks og tryggði sér 3-2 sigur. Viðar Örn hefur nú skorað 25 mörk í norsku deildinni og er ennþá langmarkahæstur.

Jón Daði Böðvarsson spilaði allan leikinn fyrir Viking sem mætti Stabæk á útivelli í dag. Lokatölur urðu 1-1 en Jón Daði lagði upp mark Viking í fyrri hálfleik, sem Veton Berisha skoraði. Stabæk jafnaði úr vítaspyrnu þegar um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum.

Fyrri greinTvö gull á haustmótunum
Næsta greinGefa hundrað tonn af kjötmjöli