Strákarnir okkar: Viðar með þrennu í mögnuðum leik

Jón Daði Böðvarsson og Viðar Örn Kjartansson mættust á knattspyrnuvellinum í gær þegar Viking og Vålerenga áttust við í hreint mögnuðum leik í norsku úrvalsdeildinni.

Viðar Örn kom Vålerenga í 0-2 á 39. mínútu leiksins en staðan var 1-2 í hálfleik. Viking jafnaði metin á 57. mínútu en þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Vålerenga skoraði þrjú mörk á sjö mínútum, þar af afgreiddi Viðar boltann tvívegis í netið.

Víkingarnir gáfust þó ekki upp og náðu að breyta stöðunni úr 2-5 í 5-5 á síðustu fjórtán mínútum leiksins en Jón Daði lagði upp tvö mörk fyrir Viking á lokakaflanum. Lokatölur 5-5.

Viðar hefur nú skorað átján mörk í átján leikjum í norsku deildinni og er lang markahæstur. Næsti leikmaður er Christian Gytkjær sem hefur skorað tíu mörk fyrir Haugesund.

Guðmundur Þórarinsson og félagar í Sarpsborg tóku á móti Haugesund í dag og þar fóru gestirnir með sigur af hólmi, 0-2. Guðmundur spilaði allan leikinn á miðjunni hjá Sarpsborg.

Fyrri greinLélegt hey þrátt fyrir góða sprettu
Næsta greinÖkumenn hvílist áður en sest er undir stýri