Strákarnir okkar: Viðar markakóngur í Noregi

Norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu lauk í dag með heilli umferð. Selfyssingarnir þrír spiluðu allir í 90 mínútur með sínum liðum en komust ekki á blað.

Viðar Örn Kjartansson og félagar í Vålerenga sigruðu Start 1-0 á heimavelli. Viðar skoraði ekki í leiknum en það kom ekki að sök því hann tók markakóngstitilinn í deildinni með yfirburðum. Viðar skoraði 25 mörk í 29 leikjum, eða tíu mörkum meira en Christian Gytkjær, leikmaður Haugasunds.

Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn með Sarpsborg gegn Lilleström þar sem Sarpsborgarar sigruðu 3-2. Guðmundur átti fínan leik að vanda en hann var í byrjunarliðinu í öllum 30 leikjum Sarpsborg á tímabilinu og skoraði þrjú mörk í deildinni.

Jón Daði Böðvarsson mætti Bodo/Glimt í dag á útivelli þar sem heimamenn sigruðu 3-2. Jón Daði spilaði 29 leiki fyrir Viking á tímabilinu, þar af 24 í byrjunarliðinu og skoraði fimm mörk.

Molde sigraði með yfirburðum í deildinni, Vålerenga varð í 6. sæti, Sarpsborg í því 8. og Viking í 10. sæti.