Strákarnir okkar: Viðar kominn yfir 20 mörk

Viðar Örn Kjartansson skoraði tvö mörk þegar lið hans Vålerenga gerði 3-3 jafntefli við Brann á heimavelli í norksu úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Viðar skoraði annað mark Vålerenga á 26. mínútu en staðan var 2-1 í hálfleik. Viðar bætti öðru marki við á 67. mínútu en Brann náði að jafna metin með tveimur mörkum á lokakaflanum.

Viðari var skipt af velli á 88. mínútu en í viðtali í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Viðar lá veikur heima daginn fyrir leik og var með hita á leikdag en var samt staðráðinn í að spila.

Viðar hefur nú skorað 21 mark í norsku úrvalsdeildinni og stefnir hratt í átt að markameti deildarinnar sem er orðið 46 ára gamalt. Metið á Odd Iversen en hann skoraði 30 mörk fyrir Rosenborg tímabilið 1967-68.

Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Viking sem gerði 2-2 jafntefli við botnlið Sandnes á útivelli á föstudag. Jóni Daða var skipt af velli á 67. mínútu.

Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn með Sarpsborg þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Rosenborg á útivelli í gær.

Þegar 21 umferð er lokið er Vålerenga í 6. sæti deildarinnar með 33 stig, Viking í 7. sæti með 32 stig og Sarpsborg í 10. sæti með 25 stig.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Alvarleg slys með tveggja mínútna millibili
Næsta greinNútíminn kominn í loftið