Strákarnir okkar stórkostlegir í lokaleiknum

Ómar Ingi Magnússon. Ljósmynd: HSÍ/Mummi Lú

Það voru Selfyssingar sem drógu vagninn svo um munaði í síðasta leik íslenska landsliðsins í handbolta á Evrópumótinu í Ungverjalandi í dag.

Ísland mætti Noregi í leik um 5. sæti og þar höfðu Norðmenn sigur, 33-34, eftir framlengingu.

Ómar Ingi Magnússon var valinn maður leiksins af mótshöldurum og hann stóð svo sannarlega undir því, frábær í vörn og sókn með einkunnina 9,4 hjá HBStatz. Ómar var markahæstur Íslendinga með 10/2 mörk og átti 6 löglegar stöðvanir í vörninni. Ómar náði þeim tímamótum snemma leiks að skora sitt 200. landsliðsmark fyrir Ísland.

Janus Daði Smárason var magnaður á lokakafla leiksins en hann fékk einkunnina 8,9 og það var ekki að sjá að hann væri nýkominn úr einnar viku einangrun vegna COVID-19. Janus Daði var næst markahæstur með 8 mörk og 5 stoðsendingar og þar á eftir kom Elvar Örn Jónsson með einkunnina 8,8. Elvar var frábær í vörninni og dró svo vagninn í sókninni í seinni hálfleiknum þar sem hann átti magnað framlag, skoraði 6 mörk og sendi 4 stoðsendingar, auk þess sem hann átti 7 lögleg stopp í vörninni.

Bjarki Már Elísson skoraði 5 mörk og nýtti sín færi vel eins og áður. Teitur Örn Einarsson var í leikmannahópnum í dag en fékk ekki úr mörgum mínútum að moða.

Ísland endaði því í 6. sæti á mótinu og næsta verkefni liðsins verður umspil um sæti á HM 2023 í apríl næstkomandi.

Fyrri greinAndlát: Þórður Tómasson
Næsta greinHrunamenn og Selfoss unnu góða sigra