Strákarnir okkar: Sjö mörk í sjö leikjum hjá Viðari

Viðar Örn Kjartansson heldur áfram að stimpla sig hressilega inn í norsku úrvalsdeildina í knattspyrnu en hann skoraði sitt sjöunda mark í dag þegar Vålerenga sigraði Stabæk 0-3.

Þar með hefur Viðar skorað sjö mörk í sjö leikjum í Tippeligaen og er markahæsti leikmaðurinn í deildinni.

Vålerenga leiddi 0-2 í hálfleik en Viðar bætti þriðja markinu við á 66. mínútu. Hann slapp þá einn innfyrir eftir slæm mistök í vörn Stabæk og afgreiddi boltann glæsilega í netið.

Viðar hefði getað bætt við fleiri mörkum hann fékk fleiri prýðileg færi. Stuðningsmenn Vålerenga kunna greinilega vel að meta þessa nýju stjörnu norska boltans en þeir sungu hástöfum eftir leik „Vi har Ørn Kjartansson“ við hið hljómfagra lag, La Donna é Mobile.

Jón Daði Böðvarsson lék allan leikinn fyrir Viking sem gerði 1-1 jafntefli við Odd Grenland í kvöld. Jón Daði var líflegur í þriggja manna framlínu Viking en tókst ekki að skora að þessu sinni.

Guðmundur Þórarinsson var að vanda í byrjunarliði Sarpsborg 08 sem sigraði Sandnes Ulf 2-1 í gær á heimavelli. Guðmundur átti fínan leik og lagði upp sigurmark sinna manna með hornspyrnu. Honum var síðan skipt af velli á 86. mínútu.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 2/2014 – Úrslit
Næsta greinNýir rekstraraðilar að tjaldsvæðinu á Stokkseyri