Strákarnir okkar: Komust ekki á blað

Selfyssingarnir í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu léku allir með liðum sínum um helgina en komust ekki á blað.

Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Viking sem tapaði 1-2 fyrir Rosenborg á heimavelli í dag. Jóni Daða var skipt af velli á 74. mínútu.

Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn með Sarpsborg 08 í gær þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Odd og á sama tíma lék Viðar Örn Kjartansson 90 mínútur með Vålerenga sem tapaði 4-3 fyrir Bodö/Glimt á útivelli.

Selfyssingarnir þrír halda nú allir heim á leið til þess að taka þátt í verkefnum A og U21 landsliða Íslands. Viðar var valinn í A-landsliðshópinn og Guðmundur í U21 árs hópinn en Jón Daði var valinn í bæði liðin og hefur ekki verið gefið út hvernig landsliðsþjálfararnir hyggjast nýta sér krafta hans.

Vålerenga er nú í 6. sæti deildarinnar með 33 stig, stigi meira en Viking. Sarpsborg siglir nokkuð lygnan sjó í 10. sæti með 26 stig.

Fyrri greinSnorri Þór og Ívar tryggðu sér titlana
Næsta greinHarður árekstur fólksbíls og rútu