Strákalið Selfoss bikarmeistari

Lið Selfoss í 1. flokki karla sigraði í sínum flokki á bikarmóti Fimleikasambandi Íslands sem fram fór á Selfossi um síðustu helgi.

Lið Selfoss keppti gegn karlaliði Gerplu og eftir spennandi keppni stóðu Selfyssingar uppi sem sigurvegar og bikarmeistarar 2012 í 1. flokki. Góð frammistaða í dansi og á trampólíni tryggði strákunum sigur, en 0,10 stig skildu liðin að í lokin. Það hefur verið gaman að fylgjast með strákunum undanfarin ár. Þeir hafa verið í stöðugri sókn, fyrst í blönduðum flokki, en nú voru þeir í fyrsta sinn að keppa sem karlalið.

Í meistaraflokki kvenna kom það fáum á óvart að meistaraflokkur Gerplu varð bikarmeistari. Lið Stjörnunnar í Garðabæ varð í öðru sæti og meistaraflokkur Selfoss hafnaði í þriðja. Selfoss-stelpurnar stóðu sig með prýði og náðu m.a. öðru sæti í dansi og á dýnu.

Aðeins eitt karlalið mætti til keppni í meistaraflokki og því urðu Gerplustrákar bikarmeistarar 2012.

Stelpurnar í Selfoss 2, sem kepptu í 1. flokki kvenna, lentu í 3. sæti á eftir Stjörnunni, en Gerplustelpur urðu bikarmeistarar. Mjög gaman var að fylgjast með Selfoss 4, sem kepptu í 2. flokki, og unnu til silfurverðlauna. Þær voru efstar á trampólíni en dansinn dró þær niður. Hópurinn er á feikna siglingu og verður gaman að fylgjast með þeim næstu árin. Bikarinn í 2. flokki fór einnig í Kópavoginn.

Fyrri greinViðurkenningar til Skarphéðinsmanna
Næsta greinLandsliðsmenn í U15 og U17