Stórt tap gegn toppliðinu

Ída Bjarklind Magnúsdóttir brýst í gegn og skorar eitt af fjórum mörkum sínum í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Botnlið Selfoss átti erfitt uppdráttar gegn toppliði Vals þegar liðin mættust í Olísdeild kvenna í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

Valur skoraði fyrstu þrjú mörkin í leiknum en munurinn vaðr mestur átta mörk, 5-13 í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 7-14.

Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik og náði að minnka muninn í fjögur mörk, 10-14. Þá tóku Valskonur aftur við sér en Selfoss skoraði aðeins tvö mörk á átján mínútna kafla um miðjan seinni hálfleikinn og þá var staðan orðin 12-27. Selfoss minnkaði muninn niður í þrettán mörk á síðustu átta mínútunum og lokatölur urðu 17-30.

Ída Bjarklind Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 4 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 3/3, Sarah Boye Sörensen og Perla Ruth Albertsdóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir 2 og þær Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Sólveig Erla Oddsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Katrín Ósk Magnúsdóttir verði 7 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Þórdís Erla Gunnarsdóttir varði 2 skot og var með 40% markvörslu.

Selfoss er áfram í botnsæti deildarinnar með 4 stig en Valur hefur 28 stig á toppnum.

Fyrri grein„Viljum gera betur fyrir bæjarbúa“
Næsta greinGönguhópar og drónar við leit í dag