Stórt tap á heimavelli

Mílan tapaði nokkuð sannfærandi, 16-30, þegar Víkingar komu í heimsókn í 1. deild karla í handbolta í kvöld.

Gestirnir tóku leikinn strax í sínar hendur og leiddu 3-7 um miðjan fyrri hálfleik. Mílan bætti tveimur mörkum við á síðara korterinu í fyrri hálfleik og staðan var 5-13 í leikhléi. Það munaði um minna fyrir Mílan að markahæsti leikmaður liðsins í vetur, Atli Kristinsson, átti við veikindi að stríða og tók því aðeins þátt í varnarleiknum í kvöld. Einnig vantaði leynivopnið Víði Frey Guðmundsson í lið Mílan í kvöld en hann lokaði marki liðsins eftirminnilega í fyrri leik liðanna á Selfossi í vetur.

Mílan byrjaði betur í seinni hálfleik og náði að minnka muninn í sex mörk, 10-16, en þá tóku gestirnir við sér aftur og juku forskotið jafnt og þétt. Að lokum skildu fjórtán mörk liðin að, en Víkingar skoruðu einmitt fjórtán mörk úr hraðaupphlaupum eftir að hafa spilað sterka vörn.

Örn Þrastarson var markahæstur hjá Mílan með 10 mörk, Magnús Már Magnússon og Guðbjörn Tryggvason skoruðu báðir 2 mörk og Árni Felix Gíslason og Ingvi Tryggvason skoruðu sitt markið hvor.

Bogi Pétur Thorarensen varði 6/1 skot í marki Mílan og var 25% markvörslu og Sverrir Andrésson varði 6 skot og var með 27% markvörslu.

Mílan er í 7. sæti deildarinnar með 8 stig en Víkingur er í 2. sætinu með 32 stig.

Fyrri greinSkíðamenn fundust heilir á húfi
Næsta greinVatnshiti ógnar öryggi heimilismanna