Stórsigur Stokkseyringa – Ægir tapaði

Stokkseyri vann 9-0 sigur á heimavelli þegar liði mætti Afríku í 4. deildinni í kvöld. Á sama tíma tapaði Ægir á heimavelli gegn ÍR í 2. deildinni.

Stokkseyri hafði mikla yfirburði gegn Afríku og leiddi 6-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur var rólegri en Stokkseyringar bættu þremur mörkum við.

Eyþór Gunnarsson var á skotskónum í kvöld og skoraði fjögur mörk, Örvar Hugason skoraði tvö mörk, Þórhallur Aron Másson og Erling Ævarr Gunnarsson skoruðu báðir eitt mark, og það gerði líka markvörðurinn Eyþór Atli Finnson sem gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr útsparki.

Stokkseyri er nú í 2. sæti A-riðilsins með 8 stig.

Rautt á Ottó
Í Þorlákshöfn tók Ægir á móti ÍR, en liðin eru að berjast á sitthvorum endanum á stigatöflunni. Ægir í botnbaráttu og ÍR í toppbaráttu. ÍR ingar voru sterkari í leiknum en fengu þó óþarfa forskot strax á 17. mínútu þegar Einar Ottó Antonsson, spilandi þjálfari Ægis, fékk rauða spjaldið. „Misskilningur,“ sagði Guðmundur Garðar Sigfússon, aðstoðarþjálfari, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Einar og leikmaður ÍR fóru stönguðust á sem endaði með því að Einar fékk rautt en ÍR-ingurinn gult.

Manni fleiri var eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir ÍR. Þeir komust yfir á 28. mínútu og leiddu 0-1 í hálfleik. Annað mark gestanna kom um miðjan seinni hálfleikinn og það þriðja úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Ægir er í 11. sæti deildarinnar með tvö stig en ÍR í 2. sætinu með sextán stig.