Stórsigur Selfoss gegn úrvalsdeildarliðinu

Perla Ruth í kröppum dansi í leiknum í kvöld. Hún skoraði 8 mörk gegn sínum gömlu félögum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir Fram í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta, 34-22, þegar liðin mættust í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.

Það var ljóst fyrir leik að viðureignin yrði áhugaverð, Selfoss er í efsta sæti 1. deildarinnar og Fram í 3. sæti úrvalsdeildarinnar. Þá var Perla Ruth Albertsdóttir, leikmaður Selfoss að mæta sínum gömlu félögum, alveg eins og Kristrún Steinþórsdóttir, leikmaður Fram.

Selfyssingar mættu ákveðnar til leiks og spiluðu frábæra vörn allan leikinn. Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörkinog komust svo í 8-3. Framarar tóku leikhlé en voru gjörsamlega ráðalausar í kjölfarið gegn kraftmiklu liði Selfoss. Staðan í hálfleik var 16-8.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks voru mikilvægar fyrir Selfoss, þær slógu ekkert af og náðu fljótlega tíu marka forskoti, 22-12. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir 1. deildarliðið sem náði mest þrettán marka forskoti en að lokum munaði tólf mörkum á liðunum.

Sigur Selfoss var sigur frábærrar liðsheildar. Tinna Sigurrós Traustadóttir átti magnaðan leik, klikkaði ekki á skoti lengi vel og skoraði nokkur ótrúleg mörk. Hún var markahæst ásamt Perlu Ruth með 8 mörk. Katla María Magnúsdóttir skoraði 6 mörk, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir 4 og þær Harpa Valey Gylfadóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir og markvörðurinn Cornelia Hermansson skoruðu allar 1 mark.

Cornelia var frábær í markinu, varði 17 skot og átti nokkrar risastórar vörslur. Áslaug Ýr Bragadóttir spilaði lokamínúturnar og varði 1 mark.

Selfoss verður því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin, sem spiluð verða í febrúar. Ásamt Selfyssingum verða Valur, HK, Grótta, Stjarnan, KA/Þór, ÍR og Haukar í pottinum.

Fyrri greinSteypustöðin vinnur hratt að rafvæðingu tækjaflotans
Næsta greinVestri reyndist sýnd veiði en ekki gefin