Stórsigur Selfoss á ÍBV

Úrvalsdeildarlið Selfoss og ÍBV í knattspyrnu áttust við í æfingaleik á Selfossvelli í morgun þar sem Selfoss vann öruggan 5-0 sigur.

Selfyssingar náðu góðum tökum á leiknum strax á upphafsmínútunum og það var Ingi Rafn Ingibergsson sem braut ísinn gegn fyrrum félögum sínum. Guðmundur Þórarinsson kom Selfoss í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Eyjamenn voru meira með boltann í upphafi síðari hálfleiks en náðu ekki að skapa sér nein færi. Lokakafli leiksins var hins vegar eign Selfyssinga. Á 70. mínútu skoraði Arilíus Marteinsson þriðja mark Selfoss beint úr aukaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Jóni Daða Böðvarssyni fyrir utan teig. Jón Daði bætti svo fjórða markinu við og Einar Ottó Antonsson skoraði fimmta og síðasta markið rétt undir lokin, en hann kom inná sem varamaður á lokamínútunum.

Þetta er fyrsti leikur Einars Ottó síðan í lokaleik Íslandsmótsins í fyrra. Síðan hefur hann glímt við axlarmeiðsli en er allur að koma til núna, að eigin sögn.

Fyrri greinAfmælisleikrit frumsýnt í dag
Næsta greinGosaskan hættuleg fólki