Stórsigur Selfoss á Akureyri

Kvennalið Selfoss í handbolta gerði góða ferð norður á Akureyri í dag þar sem liðið sigraði KA/Þór í Olísdeildinni, 20-30.

Leikurinn var jafn framan af en á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks náðu Selfyssingar að breyta stöðunni úr 8-9 í 9-13 og þannig stóðu leikar í leikhléi.

Selfoss hafði góð tök á leiknum í síðari hálfleik og leiddi með átta mörkum um miðjan hálfleikinn, 13-21. Að lokum skildu tíu mörk liðin að, lokatölur 20-30.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 12/6 mörk, Carmen Palamariu og Adina Ghidoarca skoruðu báðar 6 mörk, Steinunn Hansdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir 2 og þær Perla Ruth Albertsdóttir og Hildur Øder Einarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 13 skot í marki Selfoss og var með 40% markvörslu.

Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 18 stig, að loknum fimmtán umferðum.

Fyrri greinFyrsta landsliðsmark Viðars
Næsta greinML áfram í Gettu betur