Stórsigur hjá tíu Hamarsmönnum – Jafnt í toppslagnum

Hamar vann 5-1 sigur á Kóngunum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þrátt fyrir að vera manni færri í 70 mínútur. Árborg og ÍH gerðu 0-0 jafntefli í toppslagnum.

Hvergerðingar komust yfir gegn botnliði Kónganna á 10. mínútu þegar Daníel Rögnvaldsson skoraði.

Á 21. mínútu braut Hlynur Kárason, markvörður Hamars, á sóknarmanni Kónganna eftir misskilning í vörninni og dómarinn mat það svo að Hlynur hefði rænt hann upplögðu marktækifæri. Markverðinum knáa var því vísað af velli og Kóngarnir fengu vítaspyrnu sem þeir jöfnuðu úr.

Hvergerðingar voru ekki með varamarkmann á bekknum og því fór fyrirliðinn Ágúst Örlaugur Magnússon í rammann. Gamla brýnið Jóhannes Snorrason kom svo inná í hálfleik og tók við hönskunum.

Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik en í þeim síðari voru það Hamarsmennirnir tíu sem stjórnuðu umferðinni. Daníel kom Hamri aftur yfir á 57. mínútu og á 66. mínútu skoraði Logi Geir Þorláksson, 3-1. Daníel kórónaði síðan þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 76. mínútu en síðasta mark Hamars var sjálfsmark Kónganna á 87. mínútu.

Markalaust og mikið fjör á Selfossi
Árborg tók á móti ÍH á Selfossvelli en hvorugt liðið hafði tapað leik í sumar. Það breyttist ekki í kvöld því liðin skildu jöfn í markalausum en mjög fjörugum leik.

Besta færi leiksins fékk Ingimar Helgi Finnsson þegar hann lét verja frá sér vítaspyrnu á 35. mínútu. Bæði lið áttu skot í tréverkið í fyrri hálfleik og markverðir beggja liða voru líklega menn leiksins.

Að loknum leikjum kvöldsins er Árborg í 2. sæti riðilsins með 10 stig en Hamar er í 3. sæti með 6 stig.

Fyrri greinGagnrýna endurmat á virkjanakostum
Næsta greinVarað við grjóthruni í Ingólfsfjalli