Stórsigur hjá KFR – Hamar og ÍBU töpuðu

Magnús Ingi Einarsson skoraði mark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga vann stórsigur á Snæfelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Hamar og ÍBU töpuðu sínum leikjum.

KFR – Snæfell 8-1
KFR mætti Snæfelli frá Stykkishólmi á Hvolsvelli í kvöld. Snæfell komst yfir í fyrri hálfleik en Aron Daníel Arnalds og Þórhallur Lárusson svöruðu fyrir KFR sem leiddi 2-1 í hálfleik. Leikurinn var einstefna í seinni hálfleik en Aron Daníel bætti við tveimur mörkum fyrir KFR og þeir Þórhallur, Benedikt Benediktsson og Kacper Bielawski skoruðu allir eitt mark auk þess sem Snæfell skoraði eitt sjálfsmark, þannig að niðurstaðan varð 8-1 stórsigur hjá KFR.

Hamar – KÁ 1-2
Hamar tapaði fyrir Knattspyrnufélagi Ásvalla, KÁ, í hörkuleik á Grýluvelli. Þjálfari KÁ er Salih Heimir Porca, fyrrum þjálfari Hamars. Magnús Ingi Einarsson kom Hamri yfir á 14. mínútu en KÁ jafnaði á 33. mínútu. Jöfnunarmarkið kom úr vítaspyrnu eftir að Stefán Þór Hannesson, markvörður Hamars, hafði brotið á leikmanni KÁ í vítateignum. Það var hart barist í seinni hálfleiknum, sem var markalaus þangað til fimm mínútur voru eftir að KÁ menn náðu að knýja fram sigurmarkið. Lokatölur 1-2.

Léttir – ÍBU 3-2
ÍBU mætti Létti á útivelli í Breiðholtinu og þurftu Uppsveitamenn að játa sig sigraða. Léttir komst yfir á 7. mínútu en Benedikt Fadel Fareg jafnaði metin fyrir ÍBU á 34. mínútu. Léttismenn skoruðu hins vegar tvívegis undir lok fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléi, 3-1. Seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til í uppbótartíma að Máni Snær Benediktsson minnkaði muninn í 3-2 og þær urðu lokatölur leiksins.

Í A-riðli 4. deildarinnar eru Uppsveitir í 5. sæti með 3 stig, KFR tók toppsætið í B-riðlinum í kvöld með 4 stig og Hamar er í 4. sæti í C-riðlinum með 6 stig.

Fyrri greinVan Achteren aftur á Selfoss
Næsta greinSpennandi dagskrá á Sumartónleikum í Skálholti