Stórsigur hjá Þórsurum

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á Fjölni í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Þorlákshöfn.

Það var fátt um varnir og mikið skorað í fyrri hálfleik en Þór leiddi eftir 1. leikhluta, 35-30, og munurinn var sex stig í hálfleik, 58-52.

Þórsarar límdu saman vörnina þegar leið á 3. leikhluta og náðu góðu forskoti en þeir grænu luku fjórðungnum á 18-2 áhlaupi og gerðu þar með út um leikinn. Staðan var 85-64 þegar 4. leikhluti hófst og leikurinn var í öruggum höndum Þórs eftir það. Lokatölur urðu 108-85.

Tómas Tómasson var stigahæstur Þórsara með 27 stig, Vincent Sanford skoraði 21 stig og tók 10 fráköst og þeir Þorsteinn Már Ragnarsson og Nemanja Sovic skoruðu báðir 15 stig. Grétar Ingi Erlendsson skoraði 12 stig, Emil Karel Einarsson 7, Halldór Garðar Hermannsson og Baldur Þór Ragnarsson 5 og Oddur Ólafsson 1.

Þór er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig eins og Keflavík, Stjarnan og Njarðvík.