Stórsigur Hamars – naumt tap hjá Selfyssingum

Gabríel Sindri Möller. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á botnliði Snæfells í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Selfoss tapaði naumlega í hörkuleik gegn Fjölni.

Leikur Hamars og Snæfells í Hveragerði var einstefna allan tímann. Hamar tók leikinn í sínar hendur strax í upphafi og í hálfleik var staðan orðin 56-40. Munurinn jókst enn frekar í seinni hálfleiknum og lokatölur urðu 105-70.

Everage Richardson átti stórleik að vanda fyrir Hamar, skoraði 27 stig og stal 8 boltum. Gabríel Möller skoraði 20 stig, Arnór Sveinsson 18 og Florijan Jovanov 16. Marko Milekic var frákastahæstur Hamarsmanna með 12 fráköst en hann skoraði 3 stig.

Munaði hársbreidd á lokakaflanum
Í Gjánni á Selfossi tók Selfoss á móti sterku liði Fjölnis, sem er í toppbaráttu deildarinnar en Selfoss um miðja deild. Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en staðan í leikhléi var 44-41. Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn hins vegar illa og Fjölnir komst í 53-67 undir lok 3. leikhluta. Selfoss gerði frábært 15-3 áhlaup í lok 4. leikhluta og náði að minnka muninn niður í eitt stig, 77-78, en Fjölnismenn héngu á forskotinu og náðu að kreista fram fjögurra stiga sigur, 81-85.

Snjólfur Stefánsson var stigahæstur Selfyssinga með 20 stig og Ari Gylfason og Michael Rodriguez áttu sömuleiðis góðan leik, Ari með 17 stig og Rodriguez 16.

Deildin er nú komin í jólafrí og sitja Hamarsmenn í 5. sæti með 14 stig en Selfoss er í 6. sæti með 8 stig.

Fyrri greinJólaandinn
Næsta greinAlmar Óli dúxaði í FSu