Stórsigur Hamars – Dramatík á Hvolsvelli

Hamar vann stórsigur á Kóngunum í 4. deild karla í knattspyrnu í dag en í 3. deildinni gerði KFR dramatískt jafntefli við Þrótt Vogum.

Hamar leiddi 4-0 gegn Kóngunum í hálfleik og hafði Hrannar Einarsson þá skorað þrennu og Oddur Haraldsson eitt mark. Veislan hélt áfram í seinni hálfleik, Ingþór Björgvinsson bætti við tveimur mörkum og þeir Tómas Tómasson og Þorlákur Máni Dagbjartsson skoruðu sitt markið hvor, lokatölur 8-0.

Hamar er í góðum málum í D-riðlinum og stefnir hraðbyri á úrslitakeppnina. Liðið er í 2. sæti með 24 stig.

Á Hvolsvelli mættust KFR og Þróttur Vogum. Rangæingar komust yfir strax á 3. mínútu með marki frá Gunnari Helgasyni. Axel Sveinsson bætti við öðru marki undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-0 í leikhléi.

Þróttur minnkaði muninn á 65. mínútu en Haraldur Einarsson kom KFR í 3-1 á 70. mínútu. Lokakaflinn var hins vegar ævintýralegur. Gestirnir skoruðu þrjú mörk í röð undir lokin og komust yfir, 3-4, á lokamínútu leiksins. Í uppbótartímanum fengu Rangæingar hins vegar dæmda vítaspyrnu og úr henni skoraði Hjörvar Sigurðsson og jafnaði 4-4. Þær urðu lokatölur leiksins.

KFR hefur nú náð að safna stigum í síðustu fjórum leikjum og er liðið með 8 stig, en þó enn í fallsæti, einu stig á eftir Dalvík/Reyni.

Í gærkvöldi sótti Ægir Gróttu heim í 2. deildinni. Það var ekki ferð til fjár og Grótta sigraði 3-0. Öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik.

Fyrri greinJón Daði skoraði glæsilegt mark í fyrsta leik
Næsta greinMilljónamiði í Olís á Selfossi