Stórsigur eftir tuttugu ára hlé

Kvennalið Selfoss vann stórsigur á Aftureldingu, 26-16, þegar liðin mættust í 1. umferð N1-deildar kvenna í handbolta á Selfossi í dag.

Þetta var fyrsti leikur kvennaliðs Selfoss í efstu deild í tuttugu ár en félagið átti síðast lið í efstu deild kvenna árið 1992. Liðið í dag er að stærstu leyti samansett af ungum og efnilegum heimakonum.

Það var ljóst að hart yrði barist í dag en Selfoss og Afturelding eru bæði nýliðar í N1-deildinni.

Fyrri hálfleikur var jafn, Selfoss komst í 3-1 en Afturelding jafnaði 4-4. Þá kom góður kafli Selfyssinga sem skilaði þeim þriggja marka forskoti, 9-6, og þær héldu þeirri forystu og gott betur til hálfleiks en staðan í leikhléinu var 13-9.

Selfoss gerði út um leikinn með góðum varnarleik í upphafi seinni hálfleiks þar sem liðið skoraði fjögur fyrstu mörkin og breytti stöðunni í 17-9. Eftir það var ekki spurning hvort liðið myndi sigra og niðurstaðan var tíu marka sigur, 26-16.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var atkvæðamest Selfyssinga með 9/1 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 8, Thelma Sif Kristjánsdóttir 5, Tinna Soffía Traustadóttir 3 og Thelma Einarsdóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 11 skot í marki Selfoss og Ásdís Ingvarsdóttir 2.