Ægir styrkti stöðu sína í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag með stórsigri á Kára á heimavelli í Þorlákshöfn.
Dimitrije Cokic kom Ægi yfir strax á 9. mínútu og Aron Fannar Hreinsson tvöfaldaði forskot þeirra gulu rétt fyrir hálfleik, 2-0 í leikhléi.
Aron Fannar var aftur á ferðinni þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum og Bjarki Rúnar Jónínuson kom Ægi í 4-0 á 59. mínútu. Mörkin komu svo í hrönnum á síðustu tíu mínútunum, Kári minnkaði muninn í 4-1 á 80. mínútu en Jordan Adeyemo fann markaskóna í blálokin og skoraði tvö mörk með tveggja mínútna millibili og tryggði Ægi 6-1 sigur.
Ægir er áfram í 2. sæti deildarinnar, nú með 20 stig, einu stigi á eftir toppliði Þróttar V og fjórum stigum á undan Gróttu í 3. sætinu. Káramenn eru í 9. sæti með 9 stig.