Stórleikur Pryor dugði ekki til

Collin Pryor var allt í öllu hjá FSu í kvöld þegar liðið tapaði 94-98 gegn Hetti í 1. deild karla í körfubolta. Pryor skoraði 40 stig og tók 17 fráköst.

Selfyssingar byrjuðu vel og undir lok 1. leikhluta tóku þeir 12-2 áhlaup og breyttu stöðunni úr 16-15 í 28-17. Það tók Hött ekki langan tíma að vinna upp forskotið því gestirnir skoruðu ellefu fyrstu stigin í 2. leikhluta og komust yfir og eftir það var leikurinn í járnum. Staðan var 47-53 í hálfleik.

FSu svaraði fyrir sig í 3. leikhluta þar sem Collin Pryor fór mikinn og skoraði sautján stig en heimamenn leiddu 70-68 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Hann var hnífjafn en þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan jöfn, 85-85. Gestirnir sigu hins vegar framúr á lokamínútunum og unnu nauman sigur, 94-98.

Collin Pryor var með framlagseinkunnina 52 í leikum en hann skoraði 40 stig og tók 17 fráköst. Ari Gylfason skoraði 18 stig, Svavar Ingi Stefánsson 12, Erlendur Ágúst Stefánsson 8, Hlynur Hreinsson 7, Birkir Víðisson 4, Geir Elías Úlfur Helgason 3 og Arnþór Tryggvason 2.

FSu er með 10 stig í 6. sæti deildarinnar að loknum ellefu umferðum og sækir topplið Tindastóls heim í næstu umferð.