Stórleikur í Vallaskóla í kvöld

Í kvöld klukkan 20:00 taka Selfyssingar á móti bikarmeisturum ÍR í átta liða úrslitum Coca Cola bikars karla í handbolta.

Eins og flestir muna þá mættust þessi sömu lið í fjögurra liða úrslitum í Laugardalshöllinni fyrir ári síðan. Það lið sem vinnur leikinn í kvöld er komið áfram í undanúrslit en sama fyrirkomulag er á keppninni í ár og var í fyrra þar sem heil helgi er tekin undir svokallaða „Final-four“ helgi. Þá eru undanúrslit og úrslit spiluð sömu helgi. Þetta fyrirkomulag tókst vel í fyrra og skapaðist góð stemming í kringum leikina.

Góð stemming er í kringum handboltann hjá ÍR og gera má ráð fyrir að þeir fjölmenni austur fyrir fjall og styðji sína menn. Selfyssingar eru hvattir til að nýta tækifærið til að fylla húsið og skapa brjálaða stemmingu á pöllunum!