Stórleikur í Hveragerði

Það verður sannkallaður stórleikur í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar Hamar í Hveragerði tekur á móti Ægi frá Þorlákshöfn í botnbaráttu deildarinnar.

Ægir vann 1-0 í fyrri viðureign liðanna í Þorlákshöfn og Þorlákshafnarliðið er ofar á stigatöflunni þegar fjórtán umferðir hafa verið leiknar. Ægir er í 10. sæti deildarinnar með 14 stig en Hamar í 11. sæti með 10 stig.

Sigur er báðum liðum gríðarlega mikilvægur en nái Ægismenn aftur að knýja fram sigur þá slíta þeir sig frá fallbaráttunni og verða sjö stigum frá fallsæti. Hvergerðingar eru ekki á þeim buxunum að gefa gestunum neitt, en nái Hamar í sigur þá soga þeir gestina niður á hættulegar slóðir þar sem eins stigs munur yrði þá á liðunum.

Flautað verður til leiks á Grýluvelli í Hveragerði klukkan 19:15.

Fleiri sunnlensk lið verða í eldlínunni í kvöld en á sama tíma verður flautað til leiks í viðureign Selfoss og FH í Pepsi-deild kvenna. Liðin eru á svipuðum slóðum um miðja stigatöfluna og verður eflaust hart barist í kvöld eins og alltaf í innbyrðis leikjum þessara liða.

Fyrri greinArnar og Arnar efstir hjá ungmennunum
Næsta greinLífrænn dagur á Sólheimum