Stórleikur á Selfossvelli í kvöld

Í kvöld ræðst það hvort það verður Selfoss eða Keflavík sem tekur sæti í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu á næsta ári.

Kl. 17:30 fer fram síðari leikur liðanna en Keflavík vann fyrri viðureignina í Keflavík sl. laugardag, 3-2.

Selfyssingum nægir eins marks sigur, svo lengi sem Keflavík skorar ekki tvö mörk, þar sem útivallarmörk telja í þessari viðureign.

„Við tökum enga afsökun gilda. Hættið snemma í vinnunni, lokið skólabókinni örlítið fyrr, geymið kvöldmatinn til kl. 8, mætið bara á völlinn og verðið vitni að tímamótaviðburði í selfysskri knattspyrnusögu,“ segir á stuðningsmannavef Selfyssinga.

Að lokum er hér myndband úr einum sigurleik Selfyssinga gegn Fram í sumar. Góð upphitun fyrir kvöldið.

Fyrri greinNýtt vallarhús bætir aðstöðuna
Næsta greinBusarnir boðnir velkomnir