Stórleikir í bikarnum: Uppsveitir heimsækja KA

Markavélin George Razvan þarf að vera í stuði á móti KA. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlensku félögin fá sannkallaða stórleiki í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Dregið var í höfuðstöðvum knattspyrnusambandsins í hádeginu í dag.

Uppsveitir, sem leika í 4. deildinni, heimsækja Bestudeildarlið KA á Akureyri, en þetta er í fyrsta sinn sem Uppsveitir komast í 32-liða úrslitin. Það er ljóst að þetta er einn stærsti leikur 32-liða úrslitanna, að minnsta kosti í hugum lærisveina Liam Killa, en allt getur gerst í bikarnum, sérstaklega ef markavélin George Razvan verður á sínum besta degi.

Ægismenn fá heimaleik gegn Fimleikafélagi Hafnarfjarðar og eru Ægismenn einhuga um að endurtaka bikarævintýrið frá síðasta sumri, þar sem Ægir komst í 8-liða úrslit. Ægir og FH hafa einu sinni mæst áður, í roki og rigningu í VISA-bikarnum árið 2004 og þann leik vann FH 0-5. Atli Guðnason skoraði þrennu fyrir FH á lokamínútunum, í sínum fyrsta meistaraflokksleik, og kom Lárusi Arnari Guðmundssyni, fyrirliða Ægis, virkilega í opna skjöldu.

Selfoss og Leiknir mætast svo í Lengjudeildarslag í Breiðholtinu og ljóst að bæði lið ætla sér í 16-liða úrslitin. Selfoss og Leiknir mættust í Lengjubikarnum í febrúar síðastliðnum og þar hafði Selfoss 1-0 sigur. Bikarleikurinn er 50/50 leikur ef miðað er við viðureignir liðanna á undanförnum árum. Leiknismenn eru nýliðar í Lengjudeildinni eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni í fyrra.

Selfoss-Leiknir fer fram í Breiðholtinu miðvikudaginn 19. apríl kl. 18 og kl. 19:15 mætast KA og Uppsveitir á Greifavellinum. Ægir tekur á móti FH á Þorlákshafnarvelli á sumardaginn fyrsta kl. 16:00.

Aðrir leikir í 32-liða úrslitum eru:

Grindavík – Dalvík/Reynir
HK – KFG
Víkingur – Magni
Kári – Þór Ak.
Sindri – Fylkir
Njarðvík – KFA
Fram – Þróttur
KR – Þróttur Vogum
Grótta – KH
Stjarnan – ÍBV
Keflavík – ÍA
Fjölnir eða Kría – Breiðablik
Valur – RB

Fyrri greinGlötuð tækifæri til framtíðar í Rangarþingi eystra, Mýrdal og Skaftárhreppi
Næsta greinFalskur tónn sleginn í Árborg