Stórkostlegur sigur Selfyssinga

Selfyssingar unnu sætan sigur á Stjörnunni í 1. deild karla í handbolta í kvöld og komu í veg fyrir að Stjarnan næði að fagna sæti í efstu deild. Lokatölur eftir frábæran seinni hálfleik voru 36-35.

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, var beðinn um að finna eitt orð til að lýsa seinni hálfleiknum, og hann hitti naglann nokkuð vel á höfuðið þegar hann sagði „stórkostlegur“. Selfyssingar fóru hreinlega á kostum lengst af síðari hálfleik en staðan var 15-16 í leikhléi, eftir jafnan fyrri hálfleik.

„Við fórum inn í hálfleik og vorum ánægðir með margt sem við vorum að gera, en fannst við samt geta miklu betur. Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik vorum við komnir fjórum mörkum yfir, þrátt fyrir að vera manni færri. Við fundum neistann í vörninni, fundum uppstillingar sem virkuðu og Stjarnan átti ekki séns á tímabili. Við fengum líka hörku markvörslu frá Helga, sem vantaði kannski í fyrri hálfleik,“ sagði Stefán í samtali við sunnlenska.is.

„Sóknarleikurinn var góður fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik og færi í hverri einustu sókn og nýtingin á þeim ótrúleg. Við náðum að spila ótrúlegan leik og erum helvíti góðir þegar við látum vaða. Þetta er það sem við þurfum að halda áfram að gera, við erum bestir svona,“ sagði Selfossþjálfarinn ennfremur og bætti við að hann myndi sofna sáttur í kvöld – ef hann næði að sofna.

Selfoss skoraði fyrstu fimm mörkin í seinni hálfleik og náði mest sex marka forskoti. Þegar þrjár mínútur voru eftir eygðu Stjörnumenn hins vegar örlitla von, en munurinn var þá kominn niður í þrjú mörk. Selfyssingar stóðu áhlaup gestanna hins vegar af sér og fögnuðu innilega í leikslok.

Selfoss hefur nú 32 stig í 2. sæti deildarinnar en Stjarnan er í toppsætinu með 34 stig, þegar tvær umferðir eru eftir. Fjölnir er í 3. sæti með 30 stig eftir stórsigurinn á Mílunni í kvöld.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Andri Már Sveinsson skoraði 8, Guðjón Ágústsson og Elvar Örn Jónsson 6, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 4, Hergeir Grímsson 2 og Alexander Már Egan 1.

Helgi Hlynsson varði 9 skot í marki Selfoss og Birkir Fannar Bragason 4.

Fyrri greinMílanmenn höfðingjar heim að sækja
Næsta greinRisasigur í lokaleik Hamars