
Hestamannafélagið Sleipnir sá um að halda Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2025 í hestaíþróttum á Brávöllum Selfossi dagana 25.-29. júní.
Það var gríðarleg þátttaka og mótið feikna sterkt enda síðasta mót fyrir HM sem haldið verður í Sviss í ágúst. Landsliðseinvaldar fylgdust grannt með allan tímann og knapar og hestar voru undir smásjá. Knapar voru ekki einungis að berjast um að Íslandsmeistaratitla heldur einnig um lausu sætin í landsliðinu en liðið verður tilkynnt 11. júlí næstkomandi. Spennan var mikil, dramatík og stórkostlegur hestakostur, svo að annað eins hefur sjaldan sést á Íslandsmóti.
„Svæðið á Brávöllum skartaði sínu fegursta og voru allir sammála um að þetta væri eitt flottasta mót sem Sleipnir hefur haldið. Við vorum einstaklega heppin með veður þrátt fyrir ekki svo góða veðurspá í upphafi vikunnar. Aðstæður voru frábærar þegar Konráð Valur Sveinsson á Kastor frá Garðshorni sigrðu 250 m skeiðið á heimsmettímanum 21,06 sek en þetta er í þriðja sinn sem heimsmet er slegið á skeiðbrautinni á Selfossi,“ segir Berglind Sveinsdóttir, formaður Sleipnis.

Knapar frá Hestamannafélaginu Sleipni stóðu sig mig mikilli prýði og átti félagið fulltrúa í öllum úrslitum hringvallagreinum og má þar hæðst nefna Védísi Huld Sigurðardóttur sem hampaði tveimur Íslandsmeistaratitlum í fjórgangi V1 og tölti T1 ungmenna á Ísaki frá Þjórsárbakka, hún náði einnig 6. sæti í slaktaumatölti T2 á Breka frá Sunnuhvoli og 4. sæti í Gæðingaskeiði á Sölva frá Stuðlum.

Framkvæmdanefnd Íslandsmóts vill koma á framfæri miklum þökkum til allra styrktaraðila mótsins og sjálfboðaliðum sem unnu mikið og óeigingjarnt starf.