Stórkostleg jólasýning fimleikadeildar Selfoss

Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Inga Heiða

Jólasýning fimleikadeildar Umf. Selfoss sem að þessu sinni byggði á Disneyævintýrinu Vaiana, var sýnd þrisvar sinnum fyrir fullu húsi í íþróttahúsi Vallaskóla síðastliðinn laugardag.

Það er óhætt að segja að sýningargestir hafi skemmt sér konunglega og allir sem komu að sýningunni voru í skýjunum með daginn.

Það er mikil reynsla sem iðkendur öðlast við þátttöku á sýningu sem þessari en aðalhlutverk að þessu sinni voru í höndum stelpnanna í 1. flokki sem leiddu sýninguna út í gegn.

Inga Heiða Heimisdóttir festi allar sýningarnar á filmu og má skoða myndirnar á fésbókarsíðunni Selfoss fimleikamyndir. Allar myndir af sýningunum eru til sölu og fást fyrir kr. 750 í prentupplausn til að gleðja t.d. ömmu og afa eða bara á vegginn hjá fimleikabarninu. Allur ágóði af sölu myndanna rennur í fræðslusjóð fimleikadeildar Selfoss sem nýtist bæði iðkendum og þjálfurum.

Fimleikadeild Selfoss vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu sýningunni lið þjálfurum, stjórn, foreldrum, fyrirtækjum og öðrum velunnurum og síðast en ekki síst fá börnin þakkir fyrir frábæra frammistöðu.

Fyrri greinMagnús Kjartan með gítarinn á sundlaugarbakkanum
Næsta greinSöfnuðu 1,5 milljón króna fyrir Björgunarfélag Árborgar