Stór töp á heimavelli

Collin Pryor. Ljósmynd: Selfoss karfa/BRV

Lið Selfoss og Hamars töpuðu bæði stórt á heimavelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Selfoss fékk KV í heimsókn en liðin eru á svipuðum stað á töflunni. Það var ekki að sjá í kvöld því Selfoss spilaði enga vörn í fyrri hálfleik og staðan var 34-57 í hálfleik. Selfyssingar bættu ráð sitt í seinni hálfleik en forskot gestanna var öruggt og lokatölur urðu 69-89. Collin Pryor var bestur í liði Selfoss með 20 stig og 11 fráköst.

Í Hveragerði var Höttur í heimsókn og gestirnir náðu fljótlega frumkvæðinu. Staðan var 49-62 í leikhléi. Munurinn hélst í horfinu í 3. leikhluta en í þeim fjórða stungu Hattarmenn af og sigruðu að lokum 93-119. Isaiah Wade var besti maður vallarins með 33 stig og 17 fráköst en það dugði skammt fyrir Hamar.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 12 stig en Hamar er í 11. sæti með 4 stig.

Selfoss-KV 69-89 (17-27, 17-30, 21-14, 14-18)
Tölfræði Selfoss: Collin Pryor 20/11 fráköst, Kristijan Vladovic 16/5 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 11, Steven Lyles 9, Fjölnir Morthens 7, Halldór Halldórsson 6.

Hamar-Höttur 93-119 (28-36, 21-26, 24-26, 20-31)
Tölfræði Hamars: Isaiah Wade 33/17 fráköst, Birkir Máni Daðason 19/6 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 13/5 fráköst, Franck Kamgain 11/12 stoðsendingar, Ryan Peters 8/7 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6, Aron Orri Hilmarsson 3.

Fyrri greinJanus Daði maður leiksins í stórsigri Íslands