Stokkseyringar sterkari á svellinu

Ernir Vignisson sækir að marki Skautafélags Reykjavíkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri vann frábæran sigur á sterku liði Skautafélags Reykjavíkur í 4. deild karla í knattspyrnu, þegar liðin mættust á Stokkseyrarvelli í kvöld.

Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik en Stokkseyringar lágu til baka og freistuðu þess að sækja hratt. Það var engin markaveisla framan af leiknum en SR kom boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 0-1 í leikhléi.

Rúnar Birgisson, þjálfari Stokkseyrar, fór vel yfir málin með sínum mönnum í leikhléi. Stokkseyringar brýndu skautana og sýndu frábæra takta í seinni hálfleik, enda alvanir svellinu á Löngudæl. Luis Lucas jafnaði metin þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og Hákon Logi Stefánsson tryggði Stokkseyringum svo sigurinn með góðu marki þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum.

Lokatölur 2-1 og sigurinn lyftir Stokkseyringum upp í 5. sæti B-riðilsins, uppfyrir Uppsveitir en liðin mætast í Derbyslag á Stokkseyrarvelli á föstudaginn. Stokkseyringar hafa 9 stig, en Uppsveitir 8. Skautafélagið er hins vegar áfram í 3. sætinu með 15 stig.

Fyrri greinHægt að gera margt skemmtilegra við peningana en að borga sektir
Næsta greinÞrjú slys á sama tíma