Stokkseyringar röktu upp Álafossvörnina

Meistaraflokkur Stokkseyrar. Ljósmynd/Rúnar Birgisson

Stokkseyri vann stórsigur á Álafossi í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld og Hamar vann mikilvægan útisigur á Berserkjum.

Það var heldur betur markaveisla á Stokkseyrarvelli í kvöld þar sem Álafoss var í heimsókn. Gleðin byrjaði þó ekki fyrr en á 15. mínútu að Eysteinn Orri Valsson kom Stokkseyringum yfir og þeir Gunnar Sigfús Jónsson og Eyþór Gunnarsson bættu svo við tveimur mörkum á 22. mínútu. Örvar Hugason skoraði úr víti á 29. mínútu og staðan var 4-0 í leikhléi. 

Leikurinn róaðist nokkuð í seinni hálfleik en á lokakaflanum prjónuðu Stokkseyringar sig ítrekað í gegnum vörn gestanna og Þórhallur Aron Másson skoraði tvívegis með stuttu millibili. Sjöunda og síðasta mark leiksins var svo sjálfsmark á lokamínútunni og Stokkseyringar fögnuðu 7-0 sigri.

Malson með tvö fyrir Hamar
Hamar heimsótti Berserki á Víkingsvöll og þar kom Ingþór Björgvinsson Hamri yfir á 23. mínútu. Berserkir jöfnuðu þremur mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu en Sam Malson kom Hamri í 1-2 á 40. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Það var hart barist í seinni hálfleik og Berserkir urðu fyrri til að skora en þeir jöfnuðu 2-2 á 80. mínútu. Hvergerðingar voru hins vegar ekki hættir og þremur mínútum fyrir leikslok tryggði Malson þeim 2-3 sigur með öðru marki sínu.

Staðan í C-riðlinum er þannig að Hamar hefur 12 stig í 2. sæti en Stokkseyri er í 5. sæti með 3 stig.

Fyrri greinHerjólfur kemur til Vestmannaeyja 15. júní
Næsta greinHSU og Eyvindur endurnýja samstarfssamning