Stokkseyringar nálægt stigi – Ægir tapaði

Ægir og Stokkseyri töpuðu leikjum sínum í 2. og 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Í 2. deildinni sótti Ægir topplið ÍR heim og þar reyndust heimamenn sterkari. ÍR komst yfir á 31. mínútu og leiddi 1-0 í hálfleik. ÍR-ingar tvöfölduðu forystuna þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og fullkomnuðu svo 3-0 sigur fimm mínútum fyrir leikslok.

Ægir er í bullandi fallbaráttu í 10. sæti deildarinnar með 11 stig, eins og Njarðvíkingar sem eru sæti neðar, en Njarðvík á leik til góða.

Á Hamranesvelli í Hafnarfirði mættust ÍH og Stokkseyri í A-riðli 4. deildar í fjörugum leik. ÍH komst yfir á 9. mínútu en strax í næstu sókn jafnaði Örvar Hugason fyrir Stokkseyri. ÍH bætti tveimur mörkum við undir lok fyrri hálfleiks og fór með 3-1 forystu inn í leikhléið.

Í síðari hálfleik náðu Stokkseyringar að svara fyrir sig með tveimur mörkum. Hafsteinn Jónsson skoraði á 57. mínútu og á 74. mínútu jafnaði Örvar Hugason, 3-3. Það leit allt út fyrir að liðin myndu skilja jöfn, þangað til á þriðju mínútu uppbótartíma að ÍH-ingar skoruðu sigurmarkið og hirtu þar með toppsætið í riðlinum af Árborg.

Stokkseyri situr því áfram í 5. sæti riðilsins með 6 stig.

Fyrri greinSelfyssingar sungu ekki í Kórnum
Næsta greinAndri meðal efstu manna