Stokkseyringar lutu í gervigras

Stokkseyri tapaði 1-3 þegar liðið mætti Vatnaliljunum í mikilvægum leik í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í gær.

Ljóst var fyrir leikinn að liðið sem sigraði í viðureigninni myndi hirða toppsætið í riðlinum af Árborg. Stokkseyringar voru hrifnir af þeirri hugmynd og þeir byrjuðu betur þegar Örvar Hugason kom þeim yfir á 14. mínútu.

Vatnaliljurnar skoruðu hins vegar tvívegis með stuttu millibili um miðjan fyrri hálfleik og staðan var 1-2 í leikhléi. Þriðja mark Liljanna leit svo dagsins ljós á 60. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki.

Vatnaliljurnar fóru því á toppinn og hafa 7 stig í riðli-4 en þar á eftir koma Árborg og Stokkseyri með 6 stig. Sunnlensku liðin mætast innbyrðis á Selfossvelli næstkomandi föstudagskvöld.

Fyrri greinSpánýtt sunnlenskt dúó fæðist í Berlín – Myndband
Næsta greinBíllinn verður gerður upp og settur á safnið í Skógum