Stokkseyri og Uppsveitir léku sína síðustu leiki í sumar í 5. deild karla í knattspyrnu í dag. Stokkseyringar unnu heimasigur en Uppsveitir töpuðu á útivelli.
Stokkseyringar tóku á móti Spyrni í lokaumferðinni en Héraðsbúar eru í hörkuslag um sæti í úrslitakeppninni. Stokkseyringum tókst að setja stórt strik í þann reikning því þeir sigruðu 3-1 með mörkum frá Hafþóri Berg Ríkharðssyni (2) og Þórhalli Aroni Mássyni. Staðan var 1-1 í hálfleik en Stokkseyringar voru í hörkustuði í seinni hálfleik og kláruðu þetta martraðarsumar með góðum sigri.
Í A-riðlinum heimsóttu Uppsveitir topplið Álafoss í Mosfellsbæinn. Mosfellingar komust í 4-0 í fyrri hálfleik og staðan var orðin 5-0 þegar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Álafoss bætti við tveimur mörkum með stuttu millibili um miðjan seinni hálfleikinn en Uppsveitamenn áttu lokaorðið og Alfonso Porras og Kristjón Vattnes Helgason minnkuðu muninn í 7-2 áður en flautað var af.
Í A-riðlinum luku Uppsveitir keppni í 7. sæti með 13 stig en í B-riðlinum eru Stokkseyringar í neðsta sæti með 9 stig og fallnir í utandeildina.

