Stokkseyringar í hátíðarskapi

Hrvoje Tokic skoraði tvö mörk í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri vann sterkan sigur á RB í 5. deild karla í knattspyrnu í dag en leikurinn var hluti af dagskrá Bryggjuhátíðarinnar í dag.

RB er í toppbaráttunni og hafa verið illviðráðanlegir í sumar en Stokkseyringar höfðu litlar áhyggjur af því og léku á als oddi á heimavelli.

Hrvoje Tokic kom Stokkseyringum yfir á 9. mínútu en RB jafnaði fimm mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik. Í seinni hálfleiknum komu mörkin hins vegar á færibandi. Tokic kom Stokkseyringum aftur í forystu í upphafi hálfleiksins og tíu mínútum síðar breytti Gunnar Flosi Grétarsson stöðunni í 3-1.

Það gekk á ýmsu síðasta korterið. RB fékk víti og minnkaði muninn í 3-2 en þremur mínútum síðar skoraði Guðni Þór Valdimarsson stórkostlegt mark fyrir Stokkseyringa og staðan orðin 4-2. Aftur fengu RB-menn víti og minnkuðu muninn í 4-3 en fjórum mínútum fyrir leikslok innsiglaði Marteinn Maríus Marinósson 5-3 sigur Stokkseyringa með sínu fyrsta meistaraflokksmarki, glæsilegu skoti langt utan af velli.

Stokkseyringar lyftu sér upp í 7. sæti B-riðils 5. deildar með sigrinum og eru nú með 6 stig en RB er í 2. sæti með 14 stig.

Fyrri greinGöngukona í sjálfheldu við Hrafntinnusker
Næsta greinYfir beljandi fljót