Stokkseyringar fengu skell í túnfæti forsetans

Stokkseyringar heimsóttu Álftanes á Bessastaðavöll í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Heimamenn kláruðu leikinn í fyrri hálfleik en lokatölur voru 6-1.

Álftanes yfirspilaði Stokkseyri á upphafsmínútum leiksins og eftir aðeins 24 mínútur var staðan orðin 5-0 en staðan var 6-0 í hálfleik.

Stokkseyringar voru sprækari í seinni hálfleik og náðu að klóra í bakkann á 56. mínútu. Atli Már Jónsson átti þá skot sem hafði viðkomu í varnarmanni og yfir markvörð heimamanna. Nær komust Stokkseyringar ekki þrátt fyrir að leika einum fleiri hluta síðari hálfleiks en markvörður Álftaness meiddist eftir samstuð við samherja og liðið var búið með allar skiptingar sínar.

Stokkseyri er áfram í 6. sæti A-riðils með 3 stig.

Fyrri greinSýna fjórða árið í röð
Næsta greinSækja göngumann í snælduvitlausu veðri