Stokkseyringar fengu skell

Þórhallur Aron Másson, fyrirliði Stokkseyrar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri hóf leik í kvöld í 5. deild karla í knattspyrnu þegar liðið heimsótti Mídas á Víkingsvöllinn. Það reyndist ekki ferð til fjár en allt sem Mídas snerti varð að gulli.

Heimamenn voru komnir í 2-0 eftir níu mínútur og þeir bættu þriðja markinu við á 30. mínútu þannig að staðan var 3-0 í hálfleik.

Mörkin létu á sér standa í seinni hálfleiknum en allar flóðgáttir opnuðust á síðustu tuttugu mínútunum. Mídas komst í 4-0 en Garðar Geir Hauksson minnkaði muninn í 4-1 á 72. mínútu. Þar með var markaskorun Stokkseyrar lokið í kvöld en Mídas bætti við þremur mörkum á lokakaflanum og sigraði 7-1.

Stokkseyringar geta ekki dvalið lengi við þessa útreið því framundan er stórleikur gegn KFR á Hvolsvelli á mánudaginn klukkan 14.

Fyrri greinHeimsókn frá grænlenska íþróttasambandinu
Næsta greinStólarnir hafa flogið upp að vegg