Stokkseyringar töpuðu mikilvægum stigum í botnbaráttu 5. deildar karla í knattspyrnu þegar þeir fengu Úlfana í heimsókn í kvöld.
Hafþór Berg Ríkharðsson kom Stokkseyri yfir strax á 4. mínútu en Úlfarnir jöfnuðu metin á 20. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Gestirnir voru mun sterkari í seinni hálfleiknum og þeir bættu við mörkum á 70. og 84. mínútu, sem tryggði þeim 1-3 sigur. Stokkseyringar áttu engin svör en sigur Úlfanna hefði orðið mun stærri ef ekki hefði verið fyrir framgöngu Garðars Freys Bergssonar, sem átti frábæran leik í marki Stokkseyrar.
Stokkseyringar eru áfram í neðsta sæti B-riðils með 6 stig en Úlfarnir eru í 5. sæti með 14 stig.

