Stokkseyri tapaði í hörkuleik

Umf. Stokkseyrar hóf leik í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í gær þegar liðið mætti Íþróttafélagi Hafnarfjarðar á Leiknisvellinum í Breiðholti.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en ÍH komst yfir um miðjan fyrri hálfleik og leiddi í leikhléi, 1-0.

Um miðjan síðari hálfleik jafnaði svo Barði Páll Böðvarsson leikinn fyrir Stokkseyringa með marki uppúr hornspyrnu. Stokkseyringar sóttu í sig veðrið þegar leið á leikinn og var það því nokkuð gegn gangi leiksins þegar ÍH komst í 2-1 á 78. mínútu.

Þrátt fyrir góðar tilraunir undir lokin tókst Stokkseyringum ekki að jafna en tvívegis skall hurð nærri hælum upp við mark ÍH.