Stokkseyri sigraði í tíu marka leik

Hafþór og Sindri skoruðu báðir þrennu fyrir Stokkseyri í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar unnu sinn annan sigur í röð í 5. deild karla í knattspyrnu í dag þegar þeir tóku á móti Reyni Hellissandi í roki og rigningu á Stokkseyrarvelli.

Það blés reyndar ekki byrlega fyrir Stokkseyringum í upphafi leiks því Reynismenn komust yfir strax á 3. mínútu. Heimamenn voru hins vegar fljótir að ná vopnum sínum og röðuðu inn mörkum í fyrri hálfleiknum.

Hafþór Berg Ríkharðsson jafnaði á 15. mínútu og tveimur mínútum síðar kom Arilíus Marteinsson Stokkseyringum yfir með gullmarki úr aukaspyrnu. Þá var komið að Sindra Þór Arnarssyni en hann skoraði þrennu á nítján mínútna kafla og staðan var 5-1 fyrir Stokkseyri í hálfleik.

Hafþór bætti sjötta marki Stokkseyringa við í upphafi seinni hálfleiks en þá var komið að Reynismönnum, sem höfðu vindinn í bakið í seinni hálfleiknum. Þeir minnkuðu muninn í 6-3 en Hafþór átti lokaorðið fyrir Stokkseyri, fjórum mínútum fyrir leikslok þegar hann innsiglaði þrennu sína og tryggði Stokkseyringum 7-3 sigur.

Staðan í B-riðlinum er þannig að Stokkseyringar eru komnir upp í 7. sætið, nú með 6 stig en Reynir er í 8. sætinu með 5 stig.

Fyrri greinTíu Selfyssingar tryggðu sér sigurinn í blálokin – Ægismenn töpuðu heima
Næsta greinÍslensk sönglög á fyrstu tónleikum Engla og manna