Stokkseyri og Uppsveitir töpuðu heima

Hrvoje Tokic skorar mark Stokkseyrar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Dagurinn í dag var ekki dagur sunnlensku liðanna í 5. deild karla í knattspyrnu. Stokkseyri og Uppsveitir áttu heimaleiki og töpuðust þeir báðir 1-2.

Stokkseyringar tóku á móti Þorláki og þar kom Hrvoje Tokic heimamönnum í 1-0 á 13. mínútu eftir hornspyrnu. Staðan var 1-0 í hálfleik en gestirnir jöfnuðu metin þegar korter var eftir. Lokakaflinn var spennuþrunginn en Þorlákur skoraði sigurmarkið þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Á Laugarvatni var Skallagrímur í heimsókn hjá Uppsveitum. Jose Martinez kom Uppsveitum yfir strax á 6. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Þannig stóðu leikar allt þar til tíu mínútur voru eftir en þá tókst Borgnesingum að skora tvö mörk með mínútu millibili og tryggja sér sigurinn.

Staðan í deildinni er þannig að í B-riðlinum eru Stokkseyringar í mikilli fallhættu. Þeir þurfa að vinna síðustu tvo leikina og um leið að treysta á að Skautafélag Reykjavíkur tapi sínum leikjum. Stokkseyri er í neðsta sæti riðilsins með 6 stig. Uppsveitir eru og verða í 7. sæti í A-riðlinum með 13 stig, þeir mæta toppliði Álafoss í lokaumferðinni en sigur þar mun ekki hífa ÍBU upp töfluna.

Fyrri greinFerðamaður slasaðist við Merkurker
Næsta greinGunnar Kári aftur í vínrautt