Stokkseyri og KFR unnu stórsigra

Luis Lucas skoraði eitt af mörkum Stokkseyringa. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR og Stokkseyri unnu bæði stórsigra í dag í deildarbikar karla í knattspyrnu. Báðir leikirnir fóru fram á gervigrasinu á Selfossi þar sem KFR tók á móti KFB og Stokkseyri fékk Afríku í heimsókn.

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði tvö góð mörk í fyrri hálfleik fyrir KFR og veislan hélt áfram í upphafi seinni hálfleiks þegar Hjörvar Sigurðsson kom KFR í 3-0. Przemyslaw Bielawski innsiglaði svo 4-0 sigur KFR á 73. mínútu, en hann hafði komið inná sem varamaður þremur mínútum áður.

Stokkseyringum tókst einnig að skora snemma gegn Afríku en Alfredo Sanabria kom Stokkseyringum yfir með marki úr vítaspyrnu á 8. mínútu. Þórhallur Aron Másson tvöfaldaði forskot Stokkseyringa á 34. mínútu og staðan var 2-0 í hálfleik. Stokkseyri byrjaði seinni hálfleikinn af krafti en Luis Lucas og Elvar Guðberg Eiríksson skoruðu báðir á fyrsta korterinu. Eftirleikurinn var auðveldur en tveir leikmenn Afríku fengu rautt spjald í seinni hálfleiknum. Hákon Logi Stefánsson kom Stokkseyri í 5-0 á 74. mínútu og fimm mínútum síðar skoraði Jón Jökull Þráinsson síðasta mark leiksins, lokatölur 6-0.

Bæði KFR og Stokkseyri eru taplaus í deildarbikarnum. KFR er í toppsæti riðils 4 með 9 stig og Stokkseyri er í toppsæti riðils 2 með 6 stig.

Fyrri greinNokkur orð um umhverfisgjöld og hrossatað
Næsta greinNaumt tap á útivelli