Stokkseyri og Árborg áfram í bikarnum

Örvar Hugason skoraði tvö mörk fyrir Stokkseyri í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri og Árborg komust áfram í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í dag en Uppsveitir og KFR eru úr leik.

Stokkseyri fékk Afríku í heimsókn og var sannkölluð Sjómannadagsgleði í herbúðum Stokkseyringa sem voru sterkari aðilinn í leiknum og sigruðu 3-1. Örvar Hugason opnaði leikinn á glæsilegu aukaspyrnumarki og staðan var 1-0 í hálfleik. Eyþór Gunnarsson bætti við öðru marki fyrir Stokkseyri í upphafi seinni hálfleiks og Örvar skoraði annað af vítapunktinum áður en Afríka náði að klóra í bakkann.

Árborg, sem leikur í 4. deild, sigraði 3. deildarlið Augnabliks í bráðabana. Leikurinn var markalaus í 120 mínútur og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Pétur Logi Pétursson, markvörður Árborgar, varði eina af fimm fyrstu spyrnum Augnabliks, en gamla kempan Guðmundur Garðar Sigfússon setti sína spyrnu í stöngina og því var staðan 4-4 að fimm spyrnum loknum. Næstu vítaspyrnur fóru allar í netið þangað til Pétur Logi varði níundu spyrnu Augnabliks og tryggði Árborg sigurinn.

Stokkseyri mætir Reyni Sandgerði í 2. umferð á Stokkseyri laugardaginn 13. júní og Árborg heimsækir Njarðvík sunnudaginn fjórtánda. Hamar komst áfram í gær og mætir Kórdrengjum á útivelli föstudaginn 12. júní.

Uppsveitir og KFR töpuðu bæði 2-0 í leikjum sínum í dag. KFR tók á móti GG á Hvolsvelli en Uppsveitir spiluðu gegn SR á útivelli.

Fyrri greinHamarskonur komust ekki á flug í fyrsta leik
Næsta greinSigurður tekur við sem framkvæmdastjóri lækninga