Stokkseyri lá í Breiðholtinu

Stokkseyri heimsótti Knattspyrnufélag Breiðholts í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Heimamenn sigruðu í sex marka leik.

KB komst yfir á 24. mínútu leiksins og bætti svo öðru marki við á lokamínútu fyrri hálfleiks, 2-0 í leikhléi.

Barði Páll Böðvarsson minnkaði muninn fyrir Stokkseyri strax í upphafi síðari hálfleiks en aðeins tveimur mínútum síðar juku heimamenn forystuna í 3-1.

Fjórða mark KB leit dagsins ljós á 67. mínútu en Barði Páll minnkaði muninn í 4-2 þremur mínútum síðar og þar við sat þrátt fyrir ágætar tilraunir beggja liða.

Stokkseyri er í 6. sæti riðilsins með 9 stig og leikur sinn síðasta leik í deildinni þetta sumarið gegn Mídasi á Stokkseyrarvelli þann 20. ágúst.

Fyrri greinSumarlandið gefin út á ensku
Næsta greinÚrslitin í Brúarhlaupinu