Stokkseyri krækti í stig

Stokkseyri og Augnablik skildu jöfn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í blíðunni á Stokkseyrarvelli.

Leikurinn var jafn allan tímann og bæði lið hefðu hæglega getað bætt við mörkum en lokatölur urðu 1-1.

Örvar Hugason kom Stokkseyringum yfir á 8. mínútu leiksins þegar fyrirgjöf frá honum utan af kanti fór yfir markvörð Augnabliks og í fjærstöngina og inn. Líklega var um hárnákvæmt skot að ræða.

Stokkseyri leiddi 1-0 í hálfleik en gestirnir jöfnuðu strax á 5. mínútu síðari hálfleiks. Eftir það var leikurinn í járnum en þegar leið að lokum sóttu Stokkseyringar í sig veðrið og voru tvívegis nálægt því að skora.

Erling Ævarr Gunnarsson átti hörkuskot í þverslána á lokamínútu leiksins og í uppbótartímanum slapp Valdimar Gylfason einn innfyrir en fyrrum Ægismarkmaðurinn Gísli Þór Einarsson sá við honum og varði.

Síðasta færið áttu síðan Augnablikar en Hlynur Kárason, markvörður Stokkseyrar, var vel á verði og náði að blaka boltanum í þverslána.

Stokkseyringar eru komnir með 4 stig og sitja í 5. sæti riðilsins að loknum þremur leikjum.

Fyrri greinÆgir og Hamar töpuðu í kvöld
Næsta greinNýr traktor býður Krossánni byrginn